Icesave samningarnir

icesaveSigurður Már Jónsson. Icesave samningarnir: Afleikur aldarinnar? Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2011.

Efni: Bókin fjallar um samningaviðræður Íslendinga við Breta og Hollendinga um Icesave, frá því skömmu eftir hrun þar til síðasti samningurinn af þremur hafði verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Meginumfjöllunin snýr þó að samningaviðræðum um Icesave I, frá því Svavar Gestsson sendiherra var skipaður formaður samninganefndar auk þeirra atburða sem áttu sér stað þar til breyttri útgáfu samningsins hafði verið hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Atburðir fyrir og eftir þetta tímabil eru raktir í öllu styttra máli. Sigurður Már leggur áherslu á að greina hvernig samningamenn Íslands nálguðust verkefni sitt og hvernig þeir og helstu ráðamenn skilgreindu það. Víðari tímarammi verksins er frá október 2008 til 9. apríl 2011, en meginhluti umfjöllunarinnar tekur til liðlega eins árs, frá síðla í febrúar 2009 til marsbyrjunar 2010.

Bakgrunnur: Verkið er það sem kallast mætti „blaðamannabók“ enda rituð af blaðamanni með nærri þriggja áratuga reynslu. Sigurður Már var blaðamaður í tæpa þrjá áratugi þar til hann réðist til starfa sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar haustið 2013. Lengst af blaðamannaferli sínum var hann blaðamaður, aðstoðarritstjóri og loks ritstjóri Viðskiptablaðsins og því fjallað ítarlega um efnahagsmál og viðskipti, frá 1995 til 2010. Sigurður Már styðst við ritaðar heimildir, sem tilgreindar eru ýmist í texta eða tilvísunum neðanmáls, og viðtöl við um það bil 50 manns sem tóku þátt í samningagerðinni eða komu að málinu með einhverjum hætti. Rituðu heimildirnar sem höfundur vísar einkum til eru fréttir, greinar og bækur sem skrifaðar hafa verið um Icesave málið og viðræðurnar, einnig minnispunktar og gögn InDefence hópsins. Munnlegar heimildir eru viðtöl sem Sigurður Már tók við persónur og leikendur í viðræðunum og átökum um fyrsta Icesave-samninginn.

Mat: Markmið höfundar er hvort tveggja að taka saman yfirlit um hvernig samningaviðræður og eftirmál þeirra gengu fyrir sig og greina hvernig að þeim var staðið. Bókin skiptist í sjö hluta. Fyrst koma tveir inngangskaflar og síðan meginumfjöllun í fimm köflum sem hver og einn skiptist í tvo til sjö undirkafla. Í upphafi er stuttur kafli til að fanga andrúmsloft tímabilsins sem verkið fjallar um og á eftir honum stuttur kafli þar sem umfjöllunarefnið er sett í sögulegt samhengi. Fyrsti stóri kafli kafli verksins nefnist samningaviðræðurnar, þar eru helstu leikendur kynntir til sögunnar og rakið hvernig viðræðurnar gengu fyrir sig. Næst kemur kafli sem fjallar um lokahnykk viðræðna og samningsundirritunina auk þess að fjalla um hvernig viðbrögð við samningnum voru í samfélaginu. Í þriðja meginkaflanum er fjallað um það hvernig samningurinn tók breytingum í meðförum þingsins og í þeim fjórða er greint frá samningaviðræðum við Breta í framhaldi af því og síðan þeirri ákvörðun forseta að neita undirritun samningsins og þjóðaratkvæðagreiðslunni sem þar af leiddi. Fimmti og síðasti meginkaflinn nefnist uppgjörið, þar er reynt að meta hver kostnaður við fyrstu útgáfu samningsins um Icesave hefði orðið, verk samninganefndar undir forystu Lee Bucheits og reynt að greina lærdóma og ábyrgð í málinu.

Sigurður Már leggur upp með að greina gang viðræðna Íslands við Bretland og Holland um fyrsta Icesave-samninginn. Ljóst er af textanum að höfundur telur að Íslendingar hafi ekki átt að greiða innstæðueigendum Icesave og því hefði átt að fara aðrar leiðir en að taka á sig ábyrgð og greiðslur með samningum. Hann leggur nokkra áherslu á að horfið hafi verið frá Brussel-viðmiðunum um að viðræður um Icesave skyldu háðar með aðkomu þriggja aðila, Íslands, Bretlands og Hollands, og loks Evrópusambandsins auk þess sem tekið væri tillit til einstæðra aðstæðna Íslands eftir fall bankakerfisins. Hann kemur inn á nokkrar mögulegar aðstæður þessa, svo sem að Íslendingum hafi legið á að fjármagna enduruppbyggingu landsins og lent í vandræðum með það vegna þrýstings Breta og Hollendinga á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að afgreiða ekki áætlun um endurreisn Íslands fyrr en Icesave hefði verið afgreitt. Einnig áhrif aðildarumsóknar að Evrópusambandin og loks að forystumenn Vinstri-grænna hafi viljað láta Sjálfstæðisflokkinn sitja uppi með skömmina af því að þjóðin yrði að greiða fyrir Icesave. Síðasta tilgátan er órökstudd en ekki kveðið upp úr með þær fyrri eða aðrar hugsanlegar ástæður.

Greining höfundar á gangi viðræðna er nokkuð sannfærandi þar sem hann segir að gerð hafi verið mistök, þegar í upphafi þegar verkefnið var skilgreint í erindisbréfum og í samningagerðinni þar sem Íslendingar hafi ekki verið nógu afgerandi í viðræðunum heldur hafi þeir beðið of mikið eftir frumkvæði Breta og Hollendinga. Þannig hafi staða Íslands veikst auk þess sem ekki hafi verið lögð nægileg áhersla á það hjá Svavars-nefndinni svokölluðu að greina einstaka þætti málsins, svo sem við hvaða tíma og fjármagnskostnað skyldi miða þegar kæmi að samningum um greiðslur.

Sigurður Már velur að leggja megináherslu á samningaviðræður nefndar undir forystu Svavars Gestssonar við Breta og Hollendinga, lýsa þeim og greina. Viðræðum seinni nefndar undir forystu Lee Buchheit er aftur á móti lýst með mjög naumum hætti. Það er skiljanlegt miðað við áherslu á fyrsta samninginn og hversu illa hafi til tekist. Þó má ætla að ítarlegri umfjöllun um starfsemi Buchheit nefndarinnar hefði getað gefið fyllri mynd af Icesave málinu og ef til vill útskýrt hvernig og hvers vegna nefndirnar komust að svo ólíkum niðurstöðum.

Sigurður Már er vel ritfær. Textinn er lipur og auðskiljanlegur. Höfundur hefur tilfinningu fyrir að nota sviðsetningar til að koma andrúmslofti til skila. Það á ekki síst við þegar hann lýsir tilfinningum félaga í InDefence, svo sem í fyrsta kafla bókarinnar þegar dularfullur pakki best einum þeirra og reynist innihalda fyrsta Icesave samninginn, sem þá hvíldi mikil leynd yfir. Samningaviðræður um Icesave voru flókið fyrirbæri en verða hér vel skiljanlegar. Bókin er skipulega fram sett og kaflaskipting rökrétt.

Í lokakafla fjallar Sigurður Már um muninn á starfi blaðamannsins og sagnfræðingsins, ekki síst með tilliti til munnlegra heimilda sem blaðamaðurinn notar talsvert. Segja má að verkið liggi á milli dagbundinnar blaðamennsku og sagnfræði, ritað af blaðamanni með aðferðum blaðamennskunnar en þá verður að horfa til þess að vinnslutími og viðfangsefni er viðameira en blaðamenn fást við dags daglega. Það er nokkur galli að tilvísanir í heimildir neðanmáls og heimildaskrá eru ekki tæmandi. Raunar er á köflum erfitt að koma auga á reglu um hvenær heimilda er getið og með hvaða hætti. Í heimildaskrá birtast til dæmis ekki allar heimildir sem vísað er til í texta og neðanmálsgreinum. Óprentaðra heimilda og erlendra er ekki getið í heimildarskrá og sumra prentaðra heimilda er heldur ekki getið. Það er kostur að hafa nafnaskrá.

Brynjólfur Þór Guðmundsson, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun:

  • Friðrik Indriðason. „Ofleikur aldarinnar.“ Visir.is 5. desember 2010.
  • Gísli Freyr Valdórsson. „Mikilvæg skrásetning sögunnar.“ Viðskiptablaðið 1. desember 2011.
  • Jón G. Hauksson. „Skyldulesning um samningatækni.“ Frjáls verslun 10 2011.
  • Sigríður Á. Andersen. „Reyfarakenndur farsi.“ Þjóðmál (vor 2013)
  • Svavar Halldórsson. „Icesave samningarnir. Afleikur aldarinnar?Stjórnmál og stjórnsýsla 7/2 (2011): 557-559.
  • Örn Arnarson. „Blindir semja fyrir hönd haltra.Morgunblaðið 19. nóvember 2011.