Eileen Jerrett. Blueberry Soup. Útgáfustaður: Wilma’s Wish Productions, 2013.
Efni: Blueberry Soup er heimildakvikmynd um hrunið sem varð á Íslandi 2008 og eftirstöðvar þess. Myndin hefst þegar búsáhaldabyltingin stendur sem hæst veturinn 2008 til 2009 og lýkur fjórum árum seinna, árið 2012. Í myndinni er rætt við allskonar fólk úr mismunandi geirum samfélagsins um það sem var að gerast árin fyrir hrun og þær afleiðingar sem hrunið hafði fyrir almenning. Meðal annars er rætt við tónlistarmenn, lögfræðinga, háskólakennara og prjónakonur. Þungamiðja myndarinnar er sú tilraun sem gerð var eftir bankahrunið að endurskrifa stjórnarskrá Íslands. Hægt er að nálgast myndina á Vimeo.
Bakgrunnur: Eileen Jerrett, sem er fædd í Syracuse í New York fylki árið 1981, leikstýrði myndinni. Hún nam kvikmyndagerð við Ryerson University í Toronto í Kanada og er Blueberry Soup fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd.
Umfjöllun: Blueberry Soup er ætluð fyrir erlendan markað og bætir ekki miklu við fyrir Íslendinga. Í myndinni er lögð áhersla á nauðsyn þess að ný stjórnarskrá taki gildi en sennilega er gengið of langt í að kenna gildandi stjórnarskrá um hrunið.
Í fyrri hluta myndarinnar er einblínt á svokallaða „saumaklúbba“ sem lögðu grunninn að því borgarar kæmu saman, deildu hugmyndum og leituðust síðan eftir því að ný stjórnarskrá yrði samin fyrir þjóðina. Áhersla er lögð á stjórnlagaráð og vinnu þess. Ráðið var m.a. skipað kennurum, prestum, útvarpsmönnum, lögfræðingum, listamönnum, bændum og aðgerðasinnum. Ætlunin var að mismunandi raddir heyrðust þar. Í myndinni kynnumst við fimm konum í stjórnlagaráði og persónulegri reynslu þeirra af hruninu og vinnunni í ráðinu. Í hópnum eru m.a. Katrín Oddsdóttir lögfræðingur, Salvör Nordal heimspekingur og Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur. Þær ræða um hvernig stjórnlagaráð vann að gerð nýrrar stjórnarskrár og hvernig almenningur gat tekið þátt í því sem var að gerast og haft áhrif á nýju stjórnarskrána.
Myndin gefur góða og persónulega innsýn inn í heim stjórnlagaráðs. Hins vegar er hún frekar einhæf að því leyti að einungis er rætt við kvenkyns fulltrúa stjórnlagaráðs. Skemmtilegra hefði verið að fá að heyra sjónarhorn karlanna líka. Sérstaka athygli vekur líka hve Katrín Oddsdóttir er áberandi út alla myndina. Blueberry Soup varpar vissulega ljósi á hrunið og vinnuna við gerð nýrrar stjórnarskrár (sem ekki hefur enn tekið gildi). Myndin gangast því þeim vel sem vita ekki mikið um það sem gerðist á Íslandi í kringum hrunið. Það er sérstaklega áhugavert að fá innsýn í mismunandi skoðanir fólks á hruninu enda viðmælendurnir margir og mismunandi.
Sigurður Einar Traustason, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014
Önnur umfjöllun:
- Daly, Ciarán. „A Quiet Riot.“ Reykjavík Grapevine 17. júlí 2015, s. 16.
- Fogel, Connor. „Eileen Jerrett’s grassroots documentary shows the power of public collaboration.“ The Daily Orange 29. maí 2017.