Skuldadagar

skuldadagarHalldór Baldursson. Skuldadagar: Hrunið í grófum dráttum. Reykjavík: JPV útgáfa, 2009.

Efni: Eins og kemur fram í stuttri skýringu um efni bókarinnar á baksíðu er þetta sýn höfundar á íslensk stjórnmál með „með hárbeittum skopmyndum“. Bókin er safn slíkra mynda sem fjalla um pólitíska atburði frá ársbyrjun 2007 til september 2009. Persónur eins og Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gílsadóttir, Davíð Oddson og hinir ýmsu bankamenn fá slæma útreið í bókinni. Bókinni er ætlað að skemmta þeim sem vilja skoða skoplegar hliðar stjórnmála hér á landi og því sem tengist stjórnmálum og pólitík. Í henni er þó auðvitað skarpur pólitískur tónn. Gert er ráð fyrir að lesandinn þekki til helstu atburða sem tengjast hruninu en engar útskýringar eru gefnar með skopmyndunum. Ekki er í verkinu nafnaskrá, heimildaskrá eða aðrar skrár.

Bakgrunnur: Halldór Baldursson er fæddur árið 1965 og hefur starfað sem teiknari frá árinu 1989. Hann er meðal þeirra sem hafa staðið að útgáfu teiknimyndatímaritsins GISP frá því það var stofnað 1989. Halldór dregið upp pólitískar skopmyndir fyrir dagblöð frá árinu 2005 og hefur samhliða því kennt í Listaháskóla Íslands. Hann hefur myndskreytt tugi barnabóka og hlaut barnabókaverðlaun barnanna árið 2005 fyrir teikningar sínar í bókinni Fíusól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Þá hlaut hann Íslensku barnabókaverðlaunin 2006 fyrir bókina Sagan af undurfögru prinsessunni og prinsinum hennar sem hann myndskreytti og samdi ásamt Margréti Tryggvadóttur. Halldór var tilnefndur til blaðamannaverðlaunanna fyrir skopmyndir sínar árið 2007. Skopmyndirnar sem birtast í bókinni birtust fyrst í Blaðinu, 24 stundum, Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu.

Umfjöllun: Verkið miðlar skoplegri sýn höfundar  á pólitíska atburði frá byrjun ársins 2007 fram til september 2009. Að mínu mati eru skopmyndirnar teiknaðar út frá sjónarhorni almennings og fanga þannig tíðarandann þessi örlagaríku ár. Bókinni er ekki skipt upp í kafla en virðist að mestum hluta vera skipt í tímaröð. Þó eru myndir frá 2007 stundum með myndum frá 2009 og öfugt. Ekkert er gefið upp í lýsingu í bókinni hvað réð uppsetningu hennar.

Efnið er byggt á samtímaheimildum. Hver skopmynd fangar tíðarandann þegar hún var teiknuð og fjallar um málefni sem voru í umræðu þá. Nokkuð er um myndir þar sem hinir ólíkustu stjórnmálamenn eru að reyna að kljást við kreppuna eða sleppa því á skoplegan hátt. Þarna er t.d. mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur með kústinn á lofti og allt í drasli í kringum hana þar sem hún er að biðja Davíð [Oddsson] að koma út úr herberginu sínu og hjálpa til við að taka til eftir partýið sem hann og vinir hans héldu (s. 200). Sýnir þetta Jóhönnu sem mömmuna sem þarf að taka til eftir soninn þegar hann hélt, líklegast, leyfislaust partý en var síðan of þunnur til að hjálpa til.

Bókin gerir nákvæmlega það sem henni er ætlað, hún skemmtir lesandanum með spaugilegri sýn á íslensk stjórnmál. Höfundur færir lesandanum algerlega það sem hann býst við; ekkert meira og ekkert minna. Höfundur er ekki hlutdrægur að mínu mati en brandararnir bitna oftast á íslenskum stjórnmálamönnum og einstaka sinnum á erlendum ráðamönnum. Sem dæmi um það er þegar hann gerir skopmyndir af því þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi; þá fengu Gordon Brown og Alistair Darling að kenna á því í skopmyndum Halldórs. Dæmi um það er þegar Darling er að velja hver hann álíti sekan um glæp í svokallaðri „Line up“ eða sakbendingu eins og tíðkast víða erlendis. Þar stendur Davíð Oddson meðal annarra við hliðina á hryðjuverkamanninum Osama Bin Laden (s. 208).

Málflutningurinn er mjög skýr, efnið skemmtilegt og þægilegt aflestrar. Það sem ég myndi gagnrýna verkið fyrir er að fyrir hinn almenna lesandi sem þekkir ekki vel til stjórnmála hér á landi gæti átt erfitt með að skilja allt sem fjallað er um. Engar skýringar fylgja myndunum, hvorki um hvað verið er að fjalla né hvaða einstaklingar eru á myndinni.

Á einstaka myndum eru að vísu nöfn sem gefa til kynna hverjir á myndunum séu, eða þeir eru með nafnspjöld en í flestum tilvikum gefur höfundur sér það að lesendur þekki þá sem verið er að fjalla um. Þarna er til dæmis mynd af manni í prestbúningi að gefa saman konu og karl. Presturinn segir: „Ég lýsi ykkur hér með hjón í ca. 80 daga. Og munið að þið megið ekki gera neitt syndsamlegt án þess að spyrja mig fyrst“ (s. 198). Engar fleiri skýringar eru gefnar um myndinni en þeir sem þekkja til sjá að hér er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson að „gefa saman“ Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon.

 Þórdís Lilja Þórsdóttir, kennaranemi, nóvember 2014

Önnur umfjöllun