Stefán Gunnar Sveinsson. Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð? Reykjavík: Almenna bókafélagið, 2013.
Efni: Verkið fjallar um þá sögulegu atburði sem áttu sér stað hér á landi á tímabilinu frá mars 2008 til byrjun febrúar 2009 með áherslu á sjálfa búsáhaldabyltinguna. Hún er einn ótrúlegasti kafli í nútímasögu Íslendinga, eins og höfundurinn orðar það sjálfur. Kemst hann að þeirri niðurstöðu að búsáhaldabyltingin hafi verið hvort tveggja sjálfsprottin og skipulögð að einhverju leyti.
Bakgrunnur: Stefán Gunnar Sveinsson er sagnfræðingur og starfar sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Hann byggir verk sitt meðal annars á skýrslum og viðtölum. Hann talaði við fjölda manns sem tók beinan eða óbeinan þátt í þessum atburðum, þar á meðal lögreglumenn, mótmælendur, ráðherra og alþingismenn. Ekki er stuðst við sérstakar fræðilegar kenningar og verkið er ætlað almenningi.
Umfjöllun: Í inngangi segir frá samþykkt Samfylkingarfélagsins í Reykjavík um stjórnarslit Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks 21.janúar 2009. Fyrsti kaflinn heitir „Gas! Gas! Gas!“, þar er fjallað um óeirðasveitina, sagt frá reglubundinni þjálfun lögreglunnar á því sviði og hvaða áherslur hafa verið lagðar í þessari þjálfun. Annar kafli bókarinnar heitir „Brugðin sverð“ og fjallar um tímabilið frá lokum september til byrjun nóvember 2008. Farið er yfir örlög Glitnis, samskipti einstaklinga í ríkisstjórn, talað um örlagadaginn 6. október og neyðarlögin. Í undirkafla er atburðum á Austurvelli 8. nóvember lýst nokkuð vel.
Þriðji kafli bókarinnar heitir „ Út með Hauk, inn með Geir“, og fjallar um tímabilið frá upphafi til loka nóvember 2008. Áhersla er lögð á það hve veikt stjórnarsamstarfið var, þrýstingur var farinn að myndast á að Davíð Oddsson væri látinn víkja úr stóli seðlabankastjóra og að kosningar yrðu haldnar. Nokkuð er rætt um mótmæli á þessu tímabili og mótmælendann Hauk Hilmarsson sem var færður í fangaklefa til að afplána eldri dóm degi fyrir boðuð mótmæli. Þá er rætt um þau harkalegu mótmæli sem áttu sér stað við lögreglustöðina í kjölfar handtöku Hauks.
Kafli fjögur heitir „ Setið í Seðlabankanum’“ og segir frá tímabilinu frá lokum nóvember til byrjunar desember. Vantrausttillaga á ríkisstjórnina var lögð fram og hún felld. Sérstaklega er sagt frá mótmælunum við Seðlabanka Íslands, sem enduðu með samkomulagi á milli lögreglu og mótmælenda um að allir vikju á brott. Kafli fimm heitir „ Árás á Alþingi“ og fjallar um mótmælin í byrjun desember 2008. Sagt er frá árásinni á Alþingi þegar grímuklæddur hópur ruddist þar inn og ollu þingvörðum og lögreglu áverkum.
Sjötti kafli heitir „ Kryddsíldin rofin“ og fjallar um tímabilið frá byrjun til loka desember 2008. Sagt er sérstaklega frá mótmælunum við ráðherrabústaðinn og á Austurvelli. Fjallað er líka stuttlega um mótmælin við höfuðstöðvar Landsbankans sem beindust einnig gegn Tryggva Jónssyni, mótmælin við Fjármálaeftirlitið og við höfuðstöðvar Glitnis. Sérstaklega er sagt frá þeim atburðum sem áttu sér stað á meðan á upptökum stóð á þættinum Kryddsíldin um áramótin. Sjöundi kafli heitir „Vanhæf ríkisstjórn“ og segir frá tímabilinu frá byrjun til loka janúar 2009. Sagt er frá mótmælunum við utanríkisráðuneytið, Landsbankann og frá skemmdarverkum sem framin voru á stjórnarráðinu. Undirkaflinn „Austurvöllur, 20. janúar 2009 “ beinir sjónum að þinginu þann dag og mótmælunum fyrir utan þinghúsið. Ræddar eru getgátur um að Vinstri grænir hafi átt þátt í að skipuleggja mótmælin.
Áttundi kafli heitir „Veist að forsætisráðherra“ og fjallar um tímabilið frá lokum janúar 2009. Sagt er frá þeim atburði þegar Geir Haarde kemur út úr stjórnarráðinu og mótmælendur umkringja bíl hans, berja í farartækið og henda í það allskonar hlutum. Raktar eru umræður þingmanna og ráðherra um stjórnarslit, sagt er frá stjórnarmyndunarumræðum Vinstri grænna og Samfylkingar um minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokks. Sagt er einnig frá mótmælunum fyrir utan Þjóðleikhúsið þar sem Samfylking fundaði. Einn undirkafli heitir „Austurvöllur, 21. janúar 2009“ en þar er sagt frá hörðum mótmælum við Austurvöll þar sem meðal annars var borinn eldur að aðalinngangi Alþingishússins. Níundi kafli heitir „Ríkisstjórnin fellur “ og fjallar um tímabilið frá lokum janúar 2009 til febrúarbyrjunar. Sagt frá því þegar Geir H. Haarde tilkynnir veikindi sín, frestun landsfundar Sjálfstæðisflokks og ákvörðun um að halda kosningar í maí sama ár. Sagt er frá mótmælunum víða um borgina, frá fundi formanna flokkanna og fá fundi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Geirs þar sem stjórnarsamstarfinu var slitið. Undirkaflinn „Eftirmálar byltingar“ segir frá stjórnarmyndun Vinstri grænna og Samfylkingar. Einnig er greint frá niðurstöðum rannsóknar um tölfræðilega þátttöku í búsáhaldabyltingunni. Hér er fullyrt að þingmenn Vinstri grænna hafi verið virkir í búsáhaldabyltingunni en það koma víðsvegar fram í bókinni lítil atriði sem benda til þess að það sé rétt. Þessum kafla lýkur á samantekt á því hve margir lögreglumenn slösuðust í mótmælunum og ákærum og dómum á hendur mótmælendum.
Í niðurstöðukaflanum er spurt að nýju hvort mótmælin hafi verið sjálfsprottin eða skipulögð. Kemst höfundur að þeirri niðurstöðu að þau hafi verið hvort tveggja. Einnig eru störf ráðuneytis Geirs H. Haarde gagnrýnd og farið yfir fréttamennskuna á þessum tíma sem einkenndist af æsistíl og samúð í garð mótmælenda. Að lokum er rætt um lærdóm lögreglu og mótmælenda eftir þessar aðgerðir og betri viðbúnað lögreglu í kjölfarið. Aftast eru svo heimildaskrá og nafnaskrá.
Höfundur svarar vel spurningunni sem hann varpar fram í byrjun, hvort búsáhaldabyltingin sé sjálfsprottin eða skipulögð, miðað við þær heimildir sem fram koma í verkinu. Verkið er mjög áhugavert og er spennandi aflestrar. Augljóst er að Stefán Gunnar þekkir söguna vel og aflaði sér mikilla heimilda. Hann er almennt hlutlægur í frásögn sinni þar sem hann tekur ekki beina afstöðu í verkinu, hvorki með ráðamönnum, mótmælendum né lögreglu. Greinilegt er þó við lestur bókarinnar að Stefán hefur samúð með lögreglunni þar sem hann dregur nokkrum sinnum fram tilfinningar þeirra og fjölskyldna þeirra. Málflutningur er mjög skýr og skynsamlegur, gott málfar er á bókinni, það er auðvelt yfirlestrar og framsetning skýr. Ég hef ekkert út á verkið að setja og get vel mælt með því.
Jóhanna Ósk Jónasdóttir, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014
Önnur umfjöllun
- Baldvin Þór Bergsson „Fróðlegt yfirlit um Búsáhaldabyltinguna“. Stjórnmál og stjórnsýsla, 19. desember 2013.
- Hannes Hólmsteinn Gissurarson „Baráttudagar“. Pressan, 26. maí 2013.
- Jón Magnússon. „’Bylting’ sem reyndist þjóðinni dýr.“ Þjóðmál 9/2 (2013), s. 73-78.