Robert Z. Aliber og Gylfi Zoega. Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Basingstoke: Palgrave Macmillan, 2011.
Efni: Fyrsti hluti bókarinnar Preludes to the Icelandic Financial Crisis inniheldur útdrætti úr greinargerðum hagfræðinga hjá alþjóðlegum stofnunum sem fylgdust með íslenskum efnahag og Seðlabanka Íslands. Í öðrum hluta eru skýrslur og greinargerðir sem eru settar upp í tímaröð, eftir ýmsa hagfræðimenntaða höfunda og sérfræðinga hjá greiningardeildum. Í þriðja og síðasta hlutanum eru niðurstöður dregnar af þeirri reynslu sem stórt bankakerfi í litlu landi hefur fært Íslendingum og gæti verið öðrum víti til varnaðar.
Bakgrunnur: Gylfi Zoega er hagfræðingur með doktorsgráðu frá Colombia háskóla. Hann kennir og er prófessor við Birkbeck háskólann í London, við Háskóla Íslands og á sæti í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Robert Zelwin Aliber er prófessor emeritus í alþjóða hagfræði og fjármálum við háskólann í Chicago.
Mat: Bókinni er skipt í þrjá hluta, 16 kafla alls, og hefst á inngangsorðum eftir Aliber og umfjöllun um kaflana eftir Gylfa, auk kafla um einkavæðinguna og afnám reglugerða þar sem atburðir sem því viðvíkur eru settir í tímaröð. Síðan koma skýrslur og greiningar á íslenska efnahagskerfinu eftir ýmsa hagfræðinga og sérfræðinga hjá matsfyrirtækjum og stofnunum. Þar er að finna greinargerðir um það hvernig þessir aðilar báru kennsl á sum váleg atriði sem ollu því að Ísland varð berskjaldað gagnvart alþjóðlegum fjármálaörðugleikum, göllum lýst á peningastefnu, vöntun á áhrifaríkri fjármálastefnu, og mikilvægi þjóðhagfræðilegs ójafnvægis og hættunni á alvarlegri fjármálakreppu. Tímabil bókarinnar er 2006–2008, flestar greinarnar birtar þá, sumar þeirra ollu fjaðrafoki, eða ‘mini-krísunni’, sem átti upptök sín í þeim upplýsingum og sérfræðiáliti sem Fitch Ratings og Danske Bank birtu árið 2006, um stöðu íslenska bankakerfisins.
Fyrri hlutinn inniheldur þrjár skýrslur, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD sem fylgdist með gangi mála á Íslandi og svo frá Seðlabanka Íslands. Skýrslurnar eru frá árunum 2006–2008. Annar kafli inniheldur úrdrátt úr skýrslu Fitch Ratings og Danske Bank þar sem dregin er upp ansi dökk mynd af íslensku efnahagskerfi; lánshæfismat Seðlabankans er gert neikvætt og bent á að ofhitnun íslensks efnahagskerfis sé sú mesta í OECD ríkjunum á því tímabili sem skýrslan beinir sjónum sínum að, svo fátt eitt sé nefnt. Þar á eftir kemur Mishkin-skýrslan svonefnda og skýrsla Richards Portes, Friðriks Más Baldurssonar og Frosta Ólafssonar en með þeim vonaði Viðskiptaráð að tiltrú á íslenskt fjármálakerfi batnaði. Ellefti kafli er skýrsla Buiters og Siberts sem Landsbankinn bað um, en sú skýrsla þótti of eldfim til birtingar – vegna þeirrar niðurstöðu að bankakerfið væri óstöðugt vegna vangetu Seðlabankans til að rækja hlutverk sitt sem lánveitandi til þrautavara. Tólfti kafli er ágrip Daniels Gros fyrir CEPS (Center of European Policy Studies) þar sem hann heldur því fram að ör vöxtur bankakerfisins hafi breytt landinu í vogunarsjóð, að Seðlabankinn hafi ekki verið fær um að bjarga einum einasta banka á Íslandi og eignarverðsbólur og uppgangur í byggingariðnaði gerði landið berskjaldað fyrir klassísku sambandi gjaldeyris og bankakrísu samhliða sprengingu á fasteignamarkaði.
Þrettándi og fjórtándi kafli innihalda tvær stuttar greinargerðir eftir Þorvald Gylfason og Gylfa Zoega. Þorvaldur veitir sögulega sýn á þróun íslensks hagkerfi og einkavæðingu bankanna og pólitíska túlkun á því ferli. Hann lýsir einnig viðskiptamódeli bankanna sem notfærðu sér undirliggjandi ríkisábyrgðir til að fá lánaðar gríðarlegar upphæðir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum til að lána svo á hærri vöxtum heima fyrir. Kafli Gylfa gerir grein fyrir þeim vandræðum sem sköpuðust með þjóðhagfræðilegu ójafnvægi og ofvöxnu bankakerfi og bendir á að helsta hættan sem steðjaði að efnahagnum væri vöntun á lánveitanda til þrautavara. Siðasti kaflinn í þessum hluta, eftir prófessor Rober Z. Aliber lýsir því hvernig eignaverðsbólur myndast vegna örs vaxtar inneigna sem fjármagnaðar eru á alþjóðlegum lánamörkuðum og gerðu íslenskum bönkum kleift að vaxa úr því sem næst jöfnu hlutfalli við verga landsframleiðslu í tíu sinnum hana á aðeins fimm árum.
Í þriðja hlutanum dregur prófessor Anne Sibert saman þann lærdóm sem hafa má af því að vera með stórt bankakerfi í mjög litlu landi með sinn eigin gjaldmiðil. Hún lýsir því hvernig vöntun á trúverðugum lánveitanda til þrautavara getur valdið samhæfðu bankaáhlaupi og kemst að því að íslenskt bankakerfi hafi verið óstöðugt og landið ekki átt að leyfa bönkunum að þenjast svona út án þess að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna, sem hefði gert það að verkum að evrópski seðlabankinn hefði orðið þessi lánveitandi til þrautavara. Í bókinni eru nokkrar úttektir á kefinu því til varnar þar sem m.a. er bent á fjaðurmagn íslenska bankakerfisins og sérstöðu og því þurfi ekki að óttast.
Verkið er sjálfsagt frekar ætlað fræðasamfélaginu eða fólki innan fjármálageirans sem hefur undirstöðuþekkingu í viðskiptafræði og hagfræði. Talsvert er af skýringarmyndum, skífu-, línu- og súluritum og töflum sem lesendur með litla sem enga þekkingu á hagfræði gætu átt erfitt með að skilja. Sömuleiðis eru útreikingnar, viðskiptamódel og hugtök eins og NIIP net international investment position og CAD current account deficit eða viðskiptahalli eitthvað sem venjulegt fólk án þekkingar á fjármálageiranum þyrfti nauðsynlega að kynna sér sérstaklega ef það ætlaði að fá eitthvað út úr þessari bók. Greinargerðunum og skýrslunum fylgja vanalega heimildaskrár og/eða punktar. Nafnaskrá fylgir.
Bókin er skyldulesning fyrir hvern þann sem vill ná til botns í bankahruninu. Hún hefur að geyma álitsgerðir sem skiptu verulegu máli í mati fjármálageirans og stjórnmálamanna á stöðu íslenska fjármálakerfisins í aðdraganda hruns, en gæti verið strembin aflestrar fyrir hinn venjulega lesanda vegna fræðilegrar nálgunar og fjölmargra íðorða, súlurita, línurita og taflna sem nýtast sjálfsagt aðeins þeim sem þjálfaðir eru í þess háttar aflestri, og er þar að auki öll á ensku. Því er hún sjálfsagt aðallega hugsuð fyrir fræðasamfélagið, fjármálageirann og stjórnmálamenn. En hver sá almenni lesandi sem dembir sér í þetta verk með íðorðabók og Wikipedia sér til halds og trausts mun fá hér heilmikinn fróðleik um gang mála á hinu alþjóðlega fjármálasviði.
Darri Gunnarsson, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014