Guðni Th. Jóhannesson. Hrunið: Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar. Reykjavík: JPV , 2009.
Efni: Í bókinni er fjallað um þá atburðarás sem varð þegar mestu efnahagshörmungar samtímans skullu á Íslandi. Að mestu leyti er þetta upptalning á atburðum án greiningar en sumstaðar er búið að „krydda“ innihald bókarinnar með athugasemdum af hinum ýmsu samfélagsmiðlum eða úr fjölmiðlum til að undirstrika hugarástand almennings á þessum tíma. Bókin er gefin út tæpu ári eftir atburðina og er takmörkuð af þeim heimildum sem þá voru við hendi.
Bakgrunnur: Höfundur bókarinar er doktor í sagnfræði frá Queen Mary, University of London og stundaði ritstörf og rannsóknir við Reykjavíkurakademíuna áður en hann fékk stöðu í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hrunið spannar ekki langt tímabil eða u.þ.b. frá 15. september 2008 fram til 26. janúar árið eftir.
Umfjöllun: Ætlunarverk höfundar er að veita lesandanum innsýn í og þekkingu á helstu atvikum og ákvörðunum í aðraganda hrunsins og yfir „hrunið“ sjálft. Það tekst vel og gæti þessi bók orðið með mikilvægari fræðiritum á komandi árum um tíðarandann og atburði hrunsins.
Ekki er farið í greinandi lýsingar á atburðum enda er verkið sett saman það stuttu eftir hrunið að það hefði ekki verið fagmanlegt eða skynsamlegt. Áhersla er lögð á að rekja atburðarás, notast er við samfélagsmiðla á borð við Facebook og athugasemdakerfi fréttamiðlana til að fá betri hugmynd um hugarástand almennings þegar það á við. Slíkt efni fléttast oft og tíðum stórskemmtilega inn í frásögnina. Að mestu leyti er frásögnin í tímaröð en skiljanlega er stundum skoðað aftur eða áfram í tíma til að geta tekið nánar á vissum málefnum.
Góð heimildarskrá er í bókinni ásamt nafnaskrá og atriðisorðaskrá sem auðveldar lesturinn, hægt er að nálgast flest af því sem notast er við en sumt hefur horfið af netinu eins og getur gerst með slíkt efni. Þrátt fyrir að Hrunið sé „fræðiverk“ er textinn læsilegur og skemmtilegur, settur fram á þann hátt að sem flestir, lærðir sem leikmenn, geti notið hans og lært af honum.
Snorri Guðjónsson, nemandi í sagnfræði, nóvember 2014