Ufsagrýlur

ufsagrylurSjón. Ufsagrýlur. Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson. Lab Loki færði upp í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2010.

Efni: Þegar dómsdagsbjöllur Seðlabankans hringja inn endalok efnahagskerfisins ummyndast bankamenn í djöfulleg skrímsli sem kallast ufsagrýlur. Þær eru lokaðar í búr og færðar um borð í skip sem siglir um höfin með stöku viðkomu í skattaskjólum. Ufsagrýlurnar eru með þarma fulla af gulli, eftir áralangt át á málminum, sem lögfræðingur og endurskoðandi veiða úr saur þeirra, ögn fyrir ögn. Um borð eru einnig yfirlæknirinn dr. Móra, útrásarvíkingurinn Veigar Mar Sigurjónsson og konan hans Jónína Katrín. Þegar Veigar er kynntur til leiks er hann rúmliggjandi með óráði og ofsóttur af minningaverum úr æsku sinni. Brátt kemur í ljós að Veigar varð aldrei ufsagrýla vegna þess að hann er óbreyttur borgari sem vann fyrir Banka hf. sem eftirherma stjórnarformannsins Veigars Mars, sem er í raun Ufsagrýla A. Þegar skrímslin sleppa úr búrunum virðist saga þensluáranna á Íslandi ætla að endurtaka sig.

Bakgrunnur: Leikritið er allegóría um íslenska efnahagshrunið og rækilega staðsett í samtímanum með beinum og óbeinum vísunum í atburði, staði og einstaklinga. Eins og gjarnan í verkum Sjóns eru nöfn persóna orðaleikir: Veigar Mar Sigurjónsson er augljós tilvísun í Hreiðar Már Sigurðsson, þó að faðirinn gæti verið höfundurinn sjálfur. Samstarfsfélagi Veigars, Sigurður Rúnarsson, á sér fyrirmynd í Sigurði Einarssyni, en föðurnafnið gæti átt við leikstjóra verksins. Saman stjórna þeir Banka hf. sem liggur beint við að sé Kaupþing hf., enda var það síðasti bankinn til að hrynja eins og leikið er með í verkinu. Annar nafngreindur útrásarvíkingur er Finnur Thor Hannesson sem vísar væntanlega í Finn Ingólfsson, Björgólf Thor og Hannes Smárason, en föðurnafnið gæti einnig vísað í Hannes Hólmstein Gissurarson. Þannig mætti áfram halda með nær öll nöfn og persónur verksins. Hins vegar eru vísanirnar oft á tíðum margþættar og hægt er að velja mismunandi leiðir í ratleik verksins. Margir atburðir eiga sér einnig hliðstæður í veruleikanum: eins og frægt er orðið borðuðu bankamenn gull, Al Thani málið kemur við sögu og það er skilanefnd bankans sem leitar að gulli í saur.

Umfjöllun: Ufsagrýlur var sett á svið árið 2010 af leikhópnum Lab Loka og Hafnarfjarðarleikhúsinu í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Sýningin fékk blendna dóma og nokkrum gagnrýnendum fannst hún torskilin. En ég er ekki viss um að skýrleiki sé sanngjörn krafa á leikverk þar sem unnið er með aðferðum absúrdisma og súrrealisma.

Ufsagrýlur er fyrsta leikrrit Sjóns í fullri lengd og nokkuð sérstakt sem slíkt. Stór hluti textans eru myndrænar sviðslýsingar sem minna á skáldsagnaprósa sem getur varla talist auðveldur til uppsetningar á leiksviði:

„Þá sjáum við að þar sem búrhlerinn nemur við búrgólfið teygir Ufsagrýla A út krumluna hægt og markvisst eins langt og hún nær. Dimmblár og hreistraður útlimurinn stendur beinstífur út frá búrdyrunum. Það glampar á hrikalegar svartar klærnar. Dvöl. Ufsagrýlurnar í hinum búrunum anda grunnt og taktfast af spenningi. Ufsagrýla A tekur að reyna að beygja „framhandlegg“ um olnboga svo krumlan vísar niður. Það brestur í liðnum. Hún rekur við, stynur af sársauka.“ (s. 2)

Við lestur handritsins verða söguþráður og inntak verksins skýr. Greina má mörg kunnugleg stef úr skáldheimum Sjóns, til dæmis ummyndanir og textatengsl, en segja má að leikritið sverji sig helst í ætt við fyrstu skáldsögur og súrrealíska ljóðagerð höfundar. Þess til stuðnings má nefna óráðstal Veigars Marar þar sem hann er rúmliggjandi í öðrum þætti verksins:

„ávaxtaði pundið vel
ekki á tungunni
selur á þrjá milljarða
vegir og snjór
tóku að skekja
má ekki
áföll í hálfsársuppgjöri
saltið á veginum
milli ára
á tungunni
kaupa bankann

upp
má ekki vega salt
áhættan
ekki borða saltið af veginum … „(s. 11)

Í handritinu segir: „(svefnrofatal er með venjulegu letri, svefntal er feitletrað)“ (10) og Veigar heldur svona áfram í margar blaðsíður. Lesendur fara brátt að greina þræði í svefnrofatalinu sem fjallar um uppgang bankanna en einnig í svefntalinu sem kemur síðar í ljós að byggi á tráma sem Veigar varð fyrir í æsku. Hér er leikið með grunnhugmyndir súrrealisma um að skáldum beri að ná sambandi við undirmeðvitund og drauma. Lesendur geta síðan gert upp við sig hvor veruleikinn sé súrrealískari, bankinn eða æskan.

Hins vegar er leikritið líka sérstakt í höfundarverki Sjóns því hann er ekki vanur að takast á við samtímann með jafn beinum hætti og hér er gert. Verkið greinir meðal annars rætur kynslóðarinnar sem leiddi landið fram af hengiflugi. Veigar Mar sagði skilið við æskuna og hið gamla Ísland þegar hann gekk í Verzló, en nú virðist fortíðin ásækja hann.

Við lestur alagoríska verk er freistandi að líta á persónur sem táknmyndir fyrir tiltekin samfélagsöfl. Veigar Mar, sem tekur að sér að vera tvífari bankamannsins, gæti verið staðgengill íslensku þjóðarinnar sem í góðærinu fór að haga sér eins og bankamenn með tilheyrandi fjárfestingum og lántökum. Hann gæti einnig verið tákn fyrir æsku og sakleysi sem stefnt er gegn Ufsagrýlu A sem er hinn raunverulegi Veigar Mar, bankamaðurinn og skúrkurinn. Tvífari Veigars Mar minnir okkur á að láta ekki hefndarfýsnina blinda okkur. Við megum ekki líta fram hjá okkar ábyrgð á málum né gleyma manneskjunni undir yfirborðinu, hvort sem það yfirborð eru jakkaföt eða djöflahamur. Inn við beinið eru útrásarvíkingar sömu litlu strákarnir og stelpurnar og við hin. Veigar Mar og Ufsagrýla A eru því sitt hvor hliðin á sama peningi; einn er ímynd hins mannlega einstaklings og hin skrípamynd reiðrar þjóðar af sökudólgum efnahagshrunsins.

Sjón einskorðar sig ekki við bankamenn heldur gagnrýnir einnig listamenn sem tóku þátt í skemmtanahaldi auðmanna og þáðu frá þeim styrki. Helsta verkefni tvífara Veigars Mar er að úthluta styrkjum til fatlaðra og listamanna. Í veislu auðmanna í Þjóðmenningarhúsinu heldur einn listamaðurinn ræðu og segir: „sköpunin hefur fundið sér nýjan samastað: Í viðskiptunum. Þannig er það og við listamennirnir verðum að kyngja því …“ (s. 66). Síðan dansar hann og syngur, súrrealíska söngva á ítölsku, eins og hirðfífl, meðan bankamennirnir ræða sín á milli um hvernig halda eigi aga á listamönnum í þeirra eigu. Ufsagrýla A trompar síðan hugmyndir listamannsins um samband menningar og viðskipta þegar hann segir:

„Í rökkvuðum herbergjunum undir fótum okkar liggja skinnbækur á stöplum, á bak við rakaþétt, skothelt gler, vaktaðar af mennskum jafnt sem stafrænum augum … Hlustið … Þær eru þöglar, en þó fullar af hetjusögum, láta ekkert uppi nema maður kunni að lesa úr fornu letrinu. Og þannig var það einnig með landið okkar … (dvöl) Þar til fyrir fimm árum var Ísland enn gamalt, ósnertanlegt og þögult, en í stað þess að geyma frásagnir um unnin frægðarverk beið það eftir því að ókomin saga þess yrði lesin. […] … og líkt og bókfellið máða lét landið ekkert uppi um framtíðina nema maður kynni að lesa í táknin sem saga hinnar nýju gullaldar var rituð á. Það voru ekki bókstafir … (dvöl) Það voru tölustafir – og við vorum læs á þá.“ (s. 66)

Eins og þekkt er orðið speglaði framvarðasveit íslenska viðskiptalífsins sig í hetjuhugmyndum miðalda og notaði víkingatákn til þess að styrkja karlmennskuímynd sína og hugmyndir um yfirburði sína og þjóðarinnar. Sú hugmynd kristallast í hugtakinu: útrásarvíkingar.

Ufsagrýlur kallast einnig á við hugmyndir Mikhails Bakhtin um karnivalisma og gróteskt raunsæi sem koma meðal annars fram í umfjöllun hans um verkið Gargantúa og Pantagúl eftir endurreisnarskáldið Francios Rabelais, en þess má geta að tengingar við endurreisnina eru víða í textanum. Karnivalisminn birtist til að mynda í útstæðum kynfærum ufsagrýlanna og hvernig líkamsvessar eru gerðir miðlægir í verkinu. Við lok verksins ganga ufsagrýlurnar lausar og þeim er kennt hvernig koma eigi fram við fjölmiðla og þjóðina. Lögð er áherslu á þeir megi ekki biðjast afsökunnar á neinu. Þeir eiga þess í stað að svara á þessa leið: „Saur úr manni sem nærist á mönnum sem nærast á hryggdýrum með heitt blóð/er verðminni en/saur úr manni sem nærist á mönnum sem nærast á saur úr mönnum sem nærast á grænmeti …“ (s. 79). Þetta er síðasta dæmið um súrrealískan kveðskapur verksins og þegar ufsagrýlurnar ganga um borð í þyrlu á leið í land kallar höfuðpaur þeirra: „Hefst þá endurreisnin!“ (s. 82).

Einar Kári Jóhannsson, nemandi í bókmenntafræði, nóvember 2014

Önnur umfjöllun: