Sandárbókin

sandárbokinGyrðir Elíasson.  Sandárbókin. Pastoralsónata. Reykjavík: Uppheimar, 2007.

 Efni: Sandárbókin, sem kom út á hinu merkingarþrungna ári 2007, fjallar um listmálara sem kúplar sig út úr samfélaginu og flytur í hjólhýsi á skógræktarsvæði. Þar eyðir hann dögunum í göngur milli trjánna, í að fanga náttúruna á striga og vinna úr myrku hugarástandi sínu. Hann virðist vera kominn yfir miðjan aldur, er tveggja barna faðir en í slæmu sambandi við börnin og skilinn við konuna. Einnig hefur hann sagt skilið við veraldleg gæði og er hættur að klífa metorðastiga samfélagsins. Þungi liðinna ára, sem hann kallar sandárin, tré og ung kona sem er á sveimi í skóginum eiga hug hans allan.

Bakgrunnur: Verkið tengist samtímanum með tilvísunum í menningarfyrirbæri á borð við jeppa, grill og fjárfesta sem hafa með árunum orðið tákn um það tímabil í upphafi 21. aldar sem kennt er við góðæri. Hins vegar er meginefni bókarinnar listin sjálf. Henni er stefnt gegn öfgafullum áhrifum markaðshyggjunnar í samfélaginu sem verður eins og þungbært ok á herðum þeirra sem fylgja ekki meginstraumnum. Einnig er gert lítið úr hugmyndum um yfirburði Íslands, t.d. þegar  listamaðurinn upphefur hið erlenda og smáa í íslenskri náttúru. Samhliða er hann gagnrýninn á menninguna og umgengni þjóðarinnar við landið.

Umfjöllun: Varasamt er að smækka verk Gyrðis Elíassonar með þröngsýnum lestri í leit að einum boðskapi; eins og gagnrýni á góðærið. Þekkt er að ljóðrænn texti skáldsins býr yfir merkingaraukum milli línanna, í myndrænum vísunum og í öllu sem ekki er sagt. Merking verksins verður til með hverjum lesanda og erfitt er að draga fram óyggjandi dæmi um tengsl milli sögunnar og samtímans. Sandárbókin er samt sem áður gagnrýnin á opinskárri hátt en mörg fyrri verk höfundar og ljóst er að listmálarinn sem Gyrðir lýsir hefur stigið rækilega út fyrir markalínur samfélagsins:

„Málarar geta hvergi fallið inn í, jafnvel þótt þeir reyni það. Að flytja hug sinn yfir á myndflöt er einfaldlega ekki tekið gilt nema upp að vissu marki, og eru kannski eðlileg viðbrögð samfélags sem stefnir ljóst og leynt að efnislegri velgengni. Ekki svo langt hér uppfrá, nær eldfjallinu, er straumþungt jökulfljótið beislað í þágu þessa samfélags, vatnsflaumnum breytt í raforku og fjármuni. Sennilega væri heiðarlegast fyrir okkur mannfólkið að viðurkenna hvað við erum óheiðarleg.“ (79)

Málarinn jaðarsetur sig enn frekar með stuðningi við málstað umhverfisverndarsinna, sem var hávær þrýstihópur innan samfélagsins og ein helsta birtingarmynd andkapítalisma hér á landi á fyrstu árum 21. aldar. Stóriðjustefna stjórnvalda markaði upphafið að þenslu íslenska efnahagskerfisins og vilja sumir sérfræðingar rekja upphaf hrunsins til stórtækra virkjunarframkvæmda á Austurlandi. Vistvænt stef gengur í gegnum allt verkið (og í raun stóran hluta af höfundarverki Gyrðis), enda er listmaðurinn í sögunni gagnrýnin á meðferð þjóðarinnar á landinu. Hins vegar er íslensk náttúra ekki upphafin, markaðsett eða gerð stórbrotin í Sandárbókinni, eins og algengt var hjá mörgum öðrum íslenskum listamönnum og fyrirtækjum á sama tíma, heldur smækkuð þegar listmálarinn rýnir í tré og smágróður sem hann hyggst færa yfir á myndflöt. Fylgsni listmálarans er skógur, tákn fyrir erlenda náttúru, enda hefur hann leitað í skóga víðsvegar um heiminn. Umhverfis eru auðnir, eldfjall og sandáin sem „er gæfusöm, því hún er svo vatnslítil að engum dettur í hug að virkja hana.“ (24) Listmálarinn finnur hugarró í faðmi trjánna, langt frá þungum meginstraumi og steypu borgarinnar. Hann verður því eins og dýr sem leitar skjóls undan yfirgangi siðmenningar í manngerðum skógi, „einmana skógarúlfur á ferli um greinaflókinn myrkviðinn í lífi [s]ínu“. (49)

Listmálarinn sjálfur er heldur aumkunnarverður. Hann býr í illa förnu hjólhýsi og hefur vinnuaðstöðu í öðru slíku, en þau skera sig úr meðal lúxushíbýlanna í byggðinni. Hann er líka sá eini sem notar ekki hjólhýsið eingöngu til sumardvalar heldur býr þar fram á vetur. Langdvöl í hjólhýsi vekur hugrenningartengls við fólk kennt við Appalachia fjöllin í Bandaríkjunum og hugtök eins og hvítt hyski (e. white trash) sem er undirstrikað með líferni listmálarans. Bíllinn hans er á síðasta snúningi, öfugt við stóra jeppa nágrannanna, og sjálfur lifir hann á dósamat, slæmu kaffi, kóki og bjór. Hann fær sjaldan heimsóknir, þó að hann telji það „tákn um velgengni í samfélagi mannanna að fara á stórum bíl út fyrir borgina um helgi og heimsækja einhvern í sumarhýsi, og láta svo heimsækja sig næstu helgi á eftir í sinn sumardvalarstað.“ (64) Sonur hans lítur inn en þeir geta fátt sagt vegna samskiptaörðugleika, skógarvörður kíkir við og fjárfestir úr borginni kemur, á jeppa með risadekkjum sem „frekjan hreinlega ósar frá“ (95), vegna þess að hann „vantar“ málverk. Listmálarinn vill ekkert með hann hafa, enda reynir efnamaðurinn að kaupa öll tiltæk listaverk og leitar greinilega að verðgildi frekar en listgildi. Þessi stutti kafli afhjúpar andkapítalískar hugmyndir listamannsins sem vill ekki „tengja með beinum hætti málverk og afkomu. Sem líklega er alveg úrelt viðhorf í nútímasamfélagi.“ (93)

Á kvöldin situr hann úti með skissubók og teiknar reykjarsúlur sem leggja frá grillum. Sjálfur kann hann ekki að grilla, sem hann kallar „göfuga matarlist smáborgarans“ (20), og finnst eins og nágrannarnir séu frá annarri plánetu. Þetta kallast á við eina af fleygustu setningum góðærisins; lýsingu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á Sjálfstæðismönnum sem vilja helst græða á daginn en grilla á kvöldin. Orðin lýsa vel tíðarandi áranna fyrir hrun þegar græðgi var dyggð. Listamaðurinn í verki Gyrðis er ekki á því tilverustigi og rýnir enn frekar í grillin:

„Í sumardvalarstöðum er hefðbundin verkaskipting kynjanna með þeim hætti að maðurinn eldar. Allir verða forviða ef kona sést grilla. Það er einhver uppreisnarkeimur af því. Þannig er kynjabaráttan komin í hring – þegar konurnar vilja komast að grilleldinum, eftir að hafa sloppið með reykeitrun frá hlóðunum á sínum tíma.“ (52)

Þessi íróníski gagnrýnistónn er algengur í Sandárbókinni en listmálarinn verður aldrei predikari, enda grefur hann undan eigin trúverðuleika með lifnaðaháttum sínum og hugarástandi. Hann er þjakaður af þunglyndi enda hefur listin neytt hann til þess að færa afdrifríkar fórnir. Gagnrýnin beinist ekki síður að honum sjálfum og hann kallar ástand sitt sjálfskipaða útlegð. Fyrir vikið verður hann aumkunnarverður og málar sig bókstaflega út í horn:

„Sköpun hvers listaverks er greidd dýru verði, í þeim gjaldmiðli sem er verðmætastur allra, mannlegri nálægð. Þessvegna eru listamenn yfirleitt fátækt fólk. Þeir hafa lagt fram allt sem gæti fært þá nær öðru fólki, en notað til þess rangan miðil, listina, sem aðeins færir þá út í horn á samfélaginu. Kannski er það þetta sem orsakar að mér gengur erfiðlega að hvessa viljann til að skapa; mér finnst listin hafa skipað mér til hliðar, á skjön við allt.“ (20)

Að listin jaðarsetji iðkendur hennar er hugmynd frá 19. öld sem er undirstrikuð með áhuga listmálarans á 19. aldar kollegum sínum, sem hann bæði les um og mátar sig við. Listmálarinn notar líka gamaldags myndefni og aðferðir, eins og að mála náttúruna á vettvangi, og segir: „Nú er orðin framúrstefna að vera gamaldags, svo það má vel mála tré – einsog reyndar allt annað.“ (31) Hinn póstmóderníski listheimur samtímans á að hafa máð út öll mörk en málarinn telur hann hins vegar efnahagsdrifinn. Mörkin eru þar að leiðandi dregin af ráðandi markaðshyggju og aðkomu viðskiptaheimsins að menningarlífinu og gefið er í skyn að list sem fylgir ekki ráðandi straumum eigi það á hættu að falla til hliðar og gleymast.

Í Sandárbókinni er listamaðurinn spegill sem brugðið er upp á samtímann til þess að gagnrýna ríkjandi hugsunarhátt í samfélagsinu og draga fram það sem er að tapast. Verkinu er hins vegar ekki ætlað að vera öflugur andófsskáldskapur enda fær fagurfræðin meira vægi en pólitíkin. Gyrðir á því margt sameiginlegt með listmálaranum. List hans fylgir ekki meginstraumi markaðshyggjunnar og hann gagnrýnir samtímann með því að leggja áherslu á fagurfræði. Undir lok bókarinnar gefst listmálarinn upp á að mála veruleikann og hugarfylgsni sín, hann leggur aftur augun og áður en hann sofnar hugsar hann um fjarlægu börnin sín, konuna sem hann skildi við og öll verkin sem hann náði aldrei að mála. Hann fellur í gleymsku, eins og vitrum manni sæmir, umkringdur óseldum málverkum.

Einar Kári Jóhannsson, nemandi í bókmenntafræði

Önnur umfjöllun:

Viðtöl: