Valur Grettisson. Gott fólk. Reykjavík: Bjartur, 2015.
Efni: Sölvi er réttsýnn ungur maður sem vinnur sem menningarblaðamaður. Einn daginn banka nokkrir gamlir kunningjar uppá hjá honum með bréf frá fyrrverandi kærustu hans, Söru. Hún tilkynnir honum að hún hafi mátt þola í sambandi þeirra framkomu sem fól í sér bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi og bætir við að nú sé komið að skuldadögum. Í hönd fer svokallað ábyrgðarferli þar sem afbrotamanni er ætlað að gangast við misgjörðum sínum, viðurkenna þau, vinna í sínum málum. Í skáldsögunni segir Sölvi í fyrstu persónu frá því hvernig tilvera hans hrynur í kjölfar ábyrgðarferlisins, enda er ekki nóg með að hann þurfi að átta sig á eigin brotum heldur fylgir refsingunni einskonar samfélagsleg útskúfun, þar sem vinir og vinnufélagar snúa baki við Sölva eftir að hann er opinberlega ásakaður.
Bakgrunnur: Hrunið og eftirmálar þess leika stórt hlutverk í fyrri hluta verksins. Sölvi og Sara tilheyra bæði vinstrisinnuðum baráttuhópum, þau kynnast í miðri búsáhaldabyltingu og taka virkan þátt í að stofna róttæka stjórnmálahreyfingu og tímarit. Finna má sterkar tilvísanir í slík starf fráá krepputímanum, til dæmis í stofnun Borgarahreyfingarinnar, sem ætlað var að stokka upp í íslenskum stjórnmálum eftir hrun. Vinir þeirra og aðstandendur ábyrgðarferlisins eru flestir réttsýnt hugsjónafólk sem vill berjast fyrir bættum hag jaðarsettra í samfélaginu. Í verkinu er fengist við stórar spurningar sem snúast um réttlæti, hefnd og kerfisvæddar refsingar en þeim er síðan stefnt gegn hinum siðferðislegu samfélagsbreytingum sem fylgdu í kjölfar hrunsins. En þrátt fyrir stór viðfangsefni vakti skáldsagan helst athygli fyrir að byggja að hluta til á raunverulegum atburðum sem áttu sér stað nokkrum árum fyrr. Var höfundur gagnrýndur fyrir að nýta raunverulegt fólk sem fyrirmyndir að skáldsagnapersónum. Hér verður hvorki tekin afstaða til þessa máls né reynt að greina eðli þess. Þess í stað verða birtingarmyndir hrunsins í skáldsögunni skoðaðar og settar í samhengi við hinar stóru siðferðislegu spurningar verksins.
Umfjöllun: Eins og áður segir þá kynnast Sölvi og Sara í búsáhaldabyltingunni:
„Við kynntumst við ofbeldisfullar aðstæður. Í miðri búsáhaldabyltingunni. Ég var með dældaðan pott og járnsleif, hún var með svarta pönnu og skeið. Lögreglumennirnir voru með rispaða skildi, leðurkylfur og gljáfægða óeirðahjálma. Við vorum betur vopnuð. Hugsjónin er skriðdreki. Sara og ég áttum sömu vini en höfum einhverra hluta vegna aldrei hist fyrr en þarna. Hrunið leiddi okkur saman. Við slógum pottana þangað til við náðum takti. Þar til við hrópuðum „Vanhæf ríkisstjórn!“ einum rómi. Á milli þess sem gusurnar af táragasi gengu yfir okkur, töluðum við Sara látlaust saman, um helvítis ríkisstjórnina, bætta tilveru sem væri drifin af náungakærleik en ekki peningum. Svona vorum við bjartsýn í miðju ófriðarbáli hrunsins.“ (21)
Hér eru atburðir skáldsögunnar tvinnaðir saman við hina stóru atburði samtímans með áberandi hætti. Í kjölfarið fylgja raunsæislegar lýsingar á búsáhaldabyltingunni, með tilheyrandi slagorðum, anarkistum, bálköstum úr fiskibrettum og brennandi Óslóartré. Eftir að Sölvi fær yfir sig gusu af táragasi og liggur hálfblindur á götunni kemur Sara honum til bjargar. Þannig lýsir Sölvi þessu atviki: „hér vorum við stödd, í auga stormsins, umkringd táragasi, örvinglun og óeirðum – og hún kyssti mig. Líkt og ástandið örvaði hana kynferðislega“ (25). Fyrsti koss sambandsins á sér því stað við „ofbeldisfullar aðstæður“, eins og Sölvi orðar það, og hann virðist frá fyrstu stundu tengja hrifningu Söru á honum við baráttu og ofbeldi. Í búsáhaldabyltingunni er því lagður grunnur að ofbeldinu sem á seinna eftir að einkenna samband Sölva og Söru.
Eftir að ríkisstjórnin fellur gerist Sölvi stofnmeðlimur í nýju stjórnmálaafli:
„Á örskömmum tíma nutum við töluverðrar athygli fjölmiðla og landsmanna, ekki síst vegna mótmælanna og tíðarandans í kjölsogi hrunsins. Ég var formaður og talsmaður þessa reiða hóps í upphafi. Nokkrum mánuðum síðar varð hugmyndafræðilegt uppgjör innan hópsins. Annars vegar þeirra sem vildu byggja nýtt Ísland út frá sósíalískum gildum, þar sem stutt var í blóðugan refsivöndinn, og hins vegar þeirra sem vildu teknókratískari nálgun. Umfram allt friðsama nálgun. Persónulega var mér sama í hvaða átt við færum. Það skiptir ekki máli hvernig maður breytir samfélaginu, eða heiminum – svo lengi sem maður breytir honum.“ (10)
Slík flokkamyndun er lýsandi fyrir hið pólitíska landslag eftir hrun og henni fylgdu oft byrjunarerfiðleikar, eða eins og Sölvi lýsir þeim: „Kerfið getur alltaf treyst á tilfinningalegt upphlaup vinstrisinnaðra hugsjónamanna til þess að viðhalda óbreyttu ástandi“ (11). Vegna ágreinings og flokkdrátta segir Sölvi skilið við stjórnmálin og fjölmiðilinn sem var stofnaður samhliða flokknum:
„Við stofnuðum byltingarsinnaðan fjölmiðil til þess að mótmæla fjórflokknum og meðvirku fjölmiðlaumhverfinu. Nú var ég orðinn hluti af þessari valdablokk sem við töldum að væri meðábyrg fyrir hruni samfélagsins. Jafnvel fulltrúi hennar. Byltingin étur ekki alltaf börnin sín, stundum gefur hún þau til ættleiðingar. Mér leið eins og ég væri enn að boða byltinguna, nú innan úr maga ófreskjunnar. Þannig réttlætti ég veru mína í þessu níhilíska umhverfi.“ (9)
Sölvi hefur sem sagt kvatt rótækustu hugmyndirnar og starfar nú við annan fjölmiðil. Það eru svo fyrrum félagar hans, sem störfuðu með honum bæði á fyrri fjölmiðlinum og í flokknum, sem heimsækja hann og færa honum bréf með ásökunum Söru og útleggingu á ábyrgðarferlinu. Sölvi lítur niður á þessa menn og verður mjög hissa yfir bréfinu, enda sér hann ekki sjálfan sig sem afbrotamann:
„Ég stóð nefnilega í þeirri trú að ég væri góður. Ég hef alla tíð reynt að taka upp hanskann fyrir þá sem minna mega sín. Ég hef eytt heilu dögunum á internetinu í að verja femínisma, flóttamenn, fórnarlömb eineltis og kynferðisafbrota, margs konar minnihlutahópa og svo framvegis. Ég hef margsinnis starfað sem sjálfboðaliði. Ég lít svo á að ég hafi góðar skoðanir. Og það sem meira er; ég lít svo á að ég hafi hingað til lifað eftir hugmyndum mínum um réttláta og fullkomna veröld. Ég hélt að baráttan mín gegn hvers kyns ofbeldi, sem hefur staðið yfir nokkurn veginn allt mitt líf, endurspeglaði á einhvern hátt, sjálfan mig. Mér líður ekki beinlínis eins og hippunum sem voru svo uppteknir af því að breyta heiminum að þeir gleymdu að vera góðir við börnin sín; en kannski ætti mér einmitt að líða þannig.“ (52)
Meginþema verksins er hvernig fólk með hugsjónir, sem berst gegn ofbeldi, getur beitt ofbeldi, jafnvel án þess að taka eftir því sjálft. Sölvi beitir Söru harðræði og hann hefur í raun aldrei staldrað við til að skoða eigin hegðun. Það gerir hann svo eftir skilaboðin frá Söru; hann byrjar á því að heimsækja gamlar kærustur og fá þær til að lýsa í hverju yfirgangur hans fólst. Hægt og rólega verður mynd til í huga Sölva og lesenda: hann sinnti kærustum sínum ekki þegar þær þurftu á honum að halda og lék sér að tilfinningum þeirra. Samhliða rifjast upp fyrir Sölva allt það versta sem hann gerði Söru og þær aðfarir eru ekkert annað en ofbeldi og kynferðisleg misnotkun. Þegar Sölvi gengst loks að hluta til við ásökunum Söru fer saga þeirra sem eldur í sinu um samfélagsmiðla og fjölmiðla og fólk byrjar að dæma hann. Einn helsti vettvangur fyrir slíka umræðu er Facebook-hópurinn „Skömminni skilað“, sem minnir talsvert á hópa á borð við „Beautytips“ sem hafa gegnt samskonar hlutverki hér á landi. Sölvi lýsir hópnum svona:
„Eftir að fyrsta fréttin birtist um hópinn á vefmiðlunum, ganga yfir þúsund manns í grúppuna. Þar er leitað að svörum við ofbeldisfullri hegðun skrímslanna sem ganga laus. Sumir kenna kláminu um. Aðrir uppeldinu. Einn nefnir Sjálfstæðisflokkinn. Sá næsti skrifar: Helvítis ríkisstjórnin. Allir hneykslast svo mikið á þessu brjálaða og fársjúka samfélagi sem þau bera auðvitað enga ábyrgð á. Hópurinn er ágætur. Það er nefnilega gott að vita hvar hinir flekklausu halda sig.“ (131)
Hér er vísað í kunnuglegar skýringar á öllu sem fer úrskeiðis við hrunið. Í raun tekur Sölvi út hluta af reiði sinni yfir ábyrgðarferlinu með því að ganga reiður um götur og þá sér hann galla samfélagsins víða og kennir stjórnvöldum um. Enda er Sölvi einn af þeim sem taldi sig flekklausan þegar kom að flestum samfélagsvandamálum. Samhliða því að hann kynnist sínum eigin syndum virðist hann átta sig á samsekt þjóðarinnar þegar kemur að stórum hrakföllum á borð við hrun efnahagskerfis. Sölvi er einnig orðinn að skrímsli sem „hið góða fólk“, sem titill verksins vísar í, með sína réttlætiskennd, finnst í lagi að dæma og refsa. Enda kemur víða fram í verkinu að dómskerfi Íslands sé illa til þess fallið að taka á slíkum málum. Þess vegna velur Sara ábyrgðarferlið en fyrir vikið getur Sölvi í raun aldrei tekið út sinn dóm:
„Ekkert þeirra segir mér hvað þau eru að hugsa. Enginn segir mér til syndanna eða að ég hafi á einhvern hátt verið settur út af sakramentinu. En það er deginum ljósara að ég er fallinn niður í ruslflokk eins og hvert annað hlutabréf á Íslandi. Eini munurinn er sá að hrun mitt, eins og öll andleg hnignun, er hljóðlátt. Og það er svona sem við einangrumst á Íslandi. Hægt og hljóðlega er ég hunsaður.“ (179)
Sölva er í raun útskúfað úr samfélaginu og tilvera hans hrynur. Vinirnir, sem höfðu í fyrstu staðið með honum, yfirgefa hann einn af öðrum, hann missir vinnuna og neyðist á endanum til að flýja land. Mörgum finnst það eflaust makleg málagjöld fyrir kynferðisbrotamann en slík hefnd gengur gegn samtímahugmyndum um réttarríki og líkist einna mest útlegðardómum miðalda. Sölvi fær aldrei dóm sem hann getur tekið út, hann er dæmdur af götu- eða netdómstólum og getur því seint fengið uppreisnar æru.
Baksviðið er svo sjálft hrunið og hið góða fólk sem í kjölfarið barðist ötult fyrir betra samfélagi með réttsýni og hugsjónir að vopni. Það voru þau sem gerðu Sölva brottrækan úr samfélaginu og að hans mati voru það líka þau sem glötuðu tækifærinu til að bæta samfélagið eftir hrun. Um leið er ljóst að sjálfur er Sölvi hvorki saklaus af þeim ásökunum sem á hann eru bornar né af því að gefast upp á byltingunni. Hann er því ekki endilega það fórnarlamb sem hann gerir sig að í þessari sögu, sem hann segir sjálfur í fyrstu persónu.
Einar Kári Jóhannsson, nemi í bókmenntafræði.
Önnur umfjöllun:
- Ágúst Borgþór Sverrisson. 2015. „Játaði á sig ofbeldi og uppskar útskúfun.“ Pressan.is 10. maí.
- Erla Hlynsdóttir. 2015. „Uppgjör við ofbeldið í ástinni“. Fréttatíminn 24-26. apríl, s. 16-17.
- Friðrika Benónýsdóttir. 2015. „Ást er ekki ofbeldi, eða hvað?“. Fréttablaðið 15. maí, s. 15.
- Friðrika Benónýsdóttir. 2015. „Nauðsynlegt og hollt að fara yfir mörkin“. Stundin 16. juní.
- Marta María. 2015. „Ég er bíræfinn tilfinningaþjófur“. MBL.is 25. apríl.
- Steinunn Inga Óttarsdóttir. 2015. „Fokk ofbeldi!“. Kvennablaðið 16. maí.