Steinar Bragi. Hálendið. Reykjavík: Mál og menning, 2011.
Efni: Sagan fjallar um tvö pör úr Reykjavík, Hrafn og Vidísi, Egil og Önnu. Þau eru í jeppaferð um hálendi Íslands en á leið frá Öskju skellur á svartaþoka og Range Roverinn þeirra skellur á vegg. Veggurinn reynist tilheyra stóru húsi í miðri auðninni og þar búa hjón. Þar fá fjórmenningarnir að gista því bíllinn er óökuhæfur og símasamband ekkert. Fljótlega finna þau að það er eitthvað bogið við húsið og íbúa þess en undankomuleiðir eru fáar í sandblásinni auðninni.
Bakgrunnur: Kaflarnir um fortíð persónanna, sér í lagi Hrafns og Egils, vísa í bankahrunið en þeir stunduðu báðir fjárfestingar. Hrafn var af auðugu fólki kominn, Egill skapaði sér sín eigin tækifæri. Fjölskylda Hrafns á útgerðarfyrirtæki en Hrafn seldi bróður sínum hlut sinn í því og hóf fjárfestingar víða um heim. Egill skapaði sína eigin ímynd, lærði að ‘fitta inn’ hjá rétta fólkinu. Eftir að allt fór að hrynja skráði Egill eignir sínar á Önnu. Hrafn og Egill hafa báðir misst allt í hruninu, en Hrafn er betri í að fela það.
Umfjöllun: Hálendið er marglaga skáldsaga og í henni leikur höfundur sér meðal annars með þjóðsagnaminni sem ýtir undir nöturlegt andrúmsloft sögunnar. Hálendi Íslands verður ekki rómantískt, auðnin ekki frelsandi, heldur heftandi og fær það versta til að brjótast fram í persónunum.
Í sögunni eru Hrafn og Egill beinir þátttakendur í hruninu en konurnar þeirra hafa fylgst með eða leyft þeim að skrifa á sig eignir. Þessi hlutverk samræmast ýmsum þeim hugleiðingum um kynjuð hlutverk í tengslum við útrásina og hrunið. Lesandi fær smátt og smátt að kynnast persónum betur, þau glíma við fortíðina, hvert á sinn hátt. Egill er búinn að tapa öllu og á í mikilli togstreitu við sjálfan sig og aðra, hann leitar í heimspekilega afstæðishyggju en undir niðri kraumar reiði út í Hrafn sem hann hugsar að hljóti að hafa misst allt saman líka. Hrafn, sem er af auðugu fólki kominn, er þögul týpa og hefur ekki enn náð að takast á við fortíðardrauga sína. Anna, kona Egils, er blaðamaður sem reis hratt upp metorðastigann en eftir að hafa gert nokkra skandala virðist hún vera stöðnuð í starfi og er hætt að njóta þess. Vigdís, kona Hrafns, er sálfræðingur og segist hafa tekist á við móðurmissi á unglingsárum en lesandi getur dregið þá ályktun að svo sé ekki. Brotum úr lífi og líðan persónanna er fléttað listilega inn í frásögnina og lesandi fær mikið svigrúm til þess að túlka hana með sínum hætti.
Þegar þau klessa á grjótvegginn, sem reynist vera útveggur húss úti í miðri auðninni, veita hjónin sem þar búa unga fólkinu húsaskjól. Um leið og fjórmenningarnir koma inn fyrir fer þá að gruna að ekki sé allt með felldu. Eftir að Hrafn og Egill fara í hár saman skiljast leiðir og Egill og Anna ákveða að leggja af stað fótgangandi frá húsinu. Þau koma aftur að virkjun sem þau höfðu ekið fram á daginn áður og atburðarásin verður sífellt skrítnari. Á þessum tímapunkti er lesandi hættur að geta áttað sig á því hvað sé raunverulegt og hvað ekki, hlaup persóna um neðanjarðargöng stíflunnar minna mjög á atriði úr hryllingsmynd og höfundi tekst vel að búa til drungalega stemningu. Það er eins og atburðum sé stjórnað af einhverju yfirskilvitlegu, eða jafnvel af undirmeðvitundinni. Í lok bókarinnar er lesandinn óviss um hvort þetta hafi allt saman aðeins verið draumur.
Í viðtali í Morgunblaðinu sagði Steinar Bragi Hálendið „vera bók um kapítalismann“ og hægt er að túlka þau ummæli sem svo að endurteknar tilraunir fjórmenninganna til þess að komast frá húsinu séu útlistun á því hvernig markaðurinn sveiflast upp og niður, reynir að stabílisera sig en tekst ekki. Markaðurinn er á sífelldri hreyfingu, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Atburðarásin er full af tilviljunum, sumar koma sér vel en aðrar ekki en þessar tilviljanir fara að líta út eins og þær séu alls ekki tilviljanir. Í gegnum alla bókina eru skil raunveruleika og ímyndunar óljós og undir lok sögunnar verður atburðarásin eins og manngerð, rétt eins og atburðarás hrunsins. Það spratt ekki upp úr engu heldur var það röð aðgerða og aðgerðarleysis. Þegar á allt er litið tekst höfundi vel upp, frásögnin leikur sér með ímyndunarafl lesanda, sem gæti þurft hjálp við að átta sig á hvað snúi upp og hvað niður að lestri loknum.
Bergrún Andradóttir, nemandi í bókmenntafræði, nóvember 2014
Önnur umfjöllun:
- Arnar Eggert Thoroddsen.“Innstu myrkur.“ Morgublaðið 12. nóvember 2011, s. 47.
- Björn Þór Vilhjálmsson. „Hálendið.“ Víðsjá 1. nóvember 2011.
- Davíð K. Gestsson. „Sumu tekur maður bara eftir í myrkrinu.“ Bókmenntir.is janúar 2012.
- Ingi Freyr Vilhjálmsson. „Hrunið á hálendinu.“ DV 26. nóvember 2011
- Ingibjörg Ágústsdóttir. „Grimmt, óhugnanlegt og áþreifanlegt.“ Hugrás 2011.
- Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir. „Hryllingur á hálendinu.“ Fréttablaðið 13. nóvember 2011
Viðtöl:
- Silja Björk Huldudóttir, „Vildi glaður vera laus við hryllinginn.“ Morgunblaðið 22. desember 2011.