Steinar Bragi. Konur. Reykjavík: Nýhill, 2008.
Efni: Skáldsagan Konur er samtímahryllingssaga eftir Steinar Braga. Sagt er frá Evu, ungri íslenskri listakonu, sem er svo sjálf gerð að viðfangi nýstárlegs nútímalistaverks. Hún snýr í upphafi frásagnarinnar aftur til Íslands eftir margra ára dvöl í Bandaríkjunum og býðst að dvelja í glæsiíbúð í miðri Reykjavíkurborg. Byggingin er búin allri nýjustu tækni enda fyllsta öryggis og eftirlits gætt. Þetta „öryggi“ snýst þó upp í andhverfu sína þegar íbúðin verður fangaklefi hennar, en jafnframt leiksvið þar sem hún er hlutgerð í verki eftir samtímalistamanninn Novak en verk hans snýst um að „staðsetja konuna aftur á sínum rétta stað“.
Bakgrunnur: Fjallað er um banka- og athafnamenn og eru íslensku bankarnir Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing allir nefndir. Nær allar þær persónur sem kynntar eru til leiks í umhverfi Evu tilheyra þessum hópi athafnamanna og nýríkra. Kaupþing fær svo veigameira hlutverk í sögunni þar sem starfsmenn bankans eiga þátt í að útvega Evu íbúðina sem síðar verður fangelsi hennar. Þannig eru athafnamenn bankans birtir sem velunnarar vafasamrar nútímalistar. Byggingunni sem Eva dvelst í er lýst sem kuldalegu, nýstárlegu háhýsi við Skúlagötuna og óumflýjanlega kemur ákveðin bygging upp í huga lesanda. Sérstaklega er fjallað um hundinn Lúkas og blaðaskrif tengd honum þar sem talið var að hann hafi verið settur í tösku sem ungmenni hafi sparkað á milli sín. Í bókinni er gefið til kynna að málið hafi verið hluti af listaverki á vegum Novaks.
Umfjöllun: Sagan hefst þegar Eva er að koma sér fyrir í glæsiíbúðinni. Frá fyrstu síðu er ljóst að eitthvað skelfilegt er í uppsiglingu og Eva hefur það sífellt á tilfinningunni að hún ætti að forða sér úr íbúðinni. Ef lesendur eru ekki meðvitaðir á þessu stigi sögunnar að um hryllingsskáldskap er að ræða gæti þessi mikla taugaspenna Evu komið spánskt fyrir sjónir – og jafnvel þó að það sé ljóst að hryllingurinn sé rétt að hefjast er hræðsla hennar hreinlega ótrúverðug, enda ekkert sem gefur hættu til kynna á þessu stigi. Sakleysi í upphafi og stigvaxandi ótti hefði ef til vill verið áhrifameiri. Þegar líður á söguna kemur sú hætta sem steðjar að Evu smám saman í ljós. Á þessu stigi verður sagan mun trúverðugri en í upphafi og fangaði huga minn algjörlega.
Það form hryllingssögunnar sem Steinar Bragi velur frásögninni er heldur óvenjulegt í íslenskum bókmenntum, en fyrir vikið bæði spennandi og eftirtektarvert. Því virðist öðrum þræði ætlað að stuða lesendur og gæti jafnvel skapað þá hættu að ergja þá og espa til reiði. Steinari Braga hefur hins vegar tekist vel til, enda erfitt að leggja bókina frá sér þó að mann hrylli reglulega við. Ef markmið hans er að vekja lesendur til umhugsunar með þessu móti hefur verkið heppnast vel, enda vakti sagan mikið umtal þegar hún kom út. Ég get líka vottað um að hún skilur lesendur sína eftir í þungum þönkum. Eftir sitja spurningar um hina raunverulegu stöðu konunnar, en ekki síður vangaveltur um þær dyggðir sem urðu hvað mikilvægastar á góðæristímum. Þannig hefur formið, auk annars, gert Steinari kleift að beina augum að því andrúmslofti sem var hvað mest áberandi hér á landi á árunum fyrir hrun. Í verkinu deilir hann á öfgafullan kapítalisma með tilheyrandi græðgi sem verður öllum öðrum kenndum yfirsterkari. Sterkasta dæmið um það er að allar persónur í umhverfi Evu eru tilbúnar að láta samúð og aðrar sammannlegar kenndir lönd og leið til þess að taka þátt í að dæma hana til dauða í nafni listarinnar.
Þrátt fyrir að hafa hlotið bæði frábæra og dræma dóma verður ekki annað sagt en að verkið hafi vakið mikla eftirtekt þegar það kom fyrst út. Gagnrýnendunum Páli Baldvini og Kristjáni Hrafni þótti verkið áhrifaríkt og skila mikilvægri menningarádeilu. Öðrum, t.d. Úlfhildi Dagsdóttur, þótti það óþarflega ógeðfellt og vísanir í stöðu konunnar jafnvel þreytandi. Í dómi sínum minnist hún líka sérstaklega á málfarið sem henni þykir talmálslegt og minnir hana jafnvel á lélega þýðingu. Aftur á móti var ég ánægð með þetta stílbragð sem mér þótti ljá verkinu raunsæisbrag. Verkið fjallar um nútímafólk í Reykjavík upp úr aldamótum og í því ljósi þykir mér einmitt viðeigandi að samtöl þess og hugrenningar séu á „talmáli“.
Kostir verksins eru fyrst og fremst nýstárleg frásagnaraðferð (a.m.k. á íslenskan mælikvarða). Hún gerir höfundi kleift að koma efninu rækilega til skila, hvort sem lesanda líkar betur eða verr. Þrátt fyrir óþægilegar lýsingar er sagan nefnilega svo spennandi að nánast ómögulegt er að leggja hana frá sér. Gallarnir er helst fólgnir í ótrúverðugum aðstæðum á köflum en þar er mér efst í huga ofsahræðsla Evu í upphafi. Þessir ágallar eru þó ekki stórvægilegir enda eru Konur sérstaklega spennandi saga með mikilvægan boðskap.
Elín Þórsdóttir, nemandi í bókmenntafræði
Önnur umfjöllun:
- Kristján Hrafn Guðmundsson. „Hrollvekja úr íslenska gullæðinu.“ DV, 26. desember 2008.
- Páll Baldvin Baldvinsson. „Bentu á þann…“ Fréttablaðið, 19. desember 2008.
- Úlfhildur Dagsdóttir. „Speglandi.“ Bokmenntir.is, apríl 2009.
- Viðar Þorsteinsson. „Fjármálavæðing og mótun tímans í Konum eftir Steinar Braga.“ Ritið 3 (2015): 9-33.
- Þórdís Gísladóttir. „Konur Steinars Braga“. Druslubækur og doðrantar, 7. desember 2008.
Viðtöl:
- Bergsteinn Sigurðsson. „Þjáningin er mjólkurkýr.“ Fréttablaðið 21. desember 2008, s. 20.