Greinasafn fyrir flokkinn: Uncategorized

Ráðstefna 6. október

Laugardaginn 6. október næstkomandi stendur Háskóli Íslands fyrir ráðstefnunni Hrunið, þið munið. Ráðstefnunni er ætlað að miðla til almennings rannsóknum fræðmanna og nemenda innan og utan Háskóla Íslands á aðdragana og afleiðingum af hruni íslenska bankakerfisins haustið 2008. Fjallað verður meðal annars um þær breytingar sem hrunið hafði í för með sér í íslensku samfélagi, lærdóma sem hægt er að draga af því, og margþætt áhrif á stofnanir, menningu, og samfélagslega umræðu. Fyrstu drög að dagskrá ráðstefnunnar eru nú aðgengileg hér á vefnum.

Styrmir of hlutdrægur?

umsátrið„Ætlunarverk Styrmis  með bókinni Umsátrið er að sýna fram á helstu ástæður hrunsins. Honum tekst það í raun og veru. Aftur á móti má deila um hvort hann sé nægilega hlutlaus til að hann geti komist að marktækri niðurstöðu,“ segir Guðmundur Alfreðsson í umfjöllun um rit Styrmis Gunnarssonar, Umsátrið – Fall Íslands og endurreisn, frá árinu 2009. Einnig segir Guðmundur: „Styrmir er vinur margra þeirra sem koma við sögu, t.d. Davíðs Oddsonar, og því má ætla að hann eigi ekki auðvelt með að gagnrýna verk Davíðs.“

Átakanleg viðtöl

maybe„Í Maybe I Should Have nálgast Gunnar  bankahrunið 2008 á frumlegan og skemmtilegan hátt. Myndin er hröð og skemmtileg og heldur áhorfendum við efnið allan tímann,“ segir Kolbrún Fjóla Rúnarsdóttir í umsögn um heimildamynd Gunnars Sigurðssonar frá árinu 2010. Hún segir ennfremur „Átakanlegust eru viðtölin við nokkra einstaklinga á Guernsey sem settu ævisparnað sinn inn á Icesave reikninga og höfðu aðeins fengið helminginn af honum til baka þegar myndin var gerð.“

Varnarrit ráðherra

arni matt„Árni er vissulega ekki hlutlaus enda ekki við því að búast þar sem um stjórnmálamann er að ræða. Hann setur lítið út á fólk og virðist draga úr á flestum sviðum og vill greinilega ekki lenda í árekstrum eða láta hafa eitthvað neikvætt eftir sér um nokkurn mann. Því þarf að lesa á milli línanna til að ná utan um það sem var að gerast á þessum tíma,“ segir Ingibjörg Elín Þorvaldsdóttir í umsögn um bókina Árni Matt. Frá bankahruni til byltingar eftir Árna M. Mathiesen fyrrverandi fjármálaráðherra og Þórhall Jósepsson blaðamann en hún kom út árið 2010. Um er að ræða varnarrit Árna gagnvart opinberum ásökunum um að hann hafi sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum á falli íslensku bankanna árið 2008 og tengdra atburða.

Gekk forsetinn of langt?

saga af forseta„Í heildina litið er bókin fróðleg og skemmtileg fyrir þá sem hafa áhuga á störfum Ólafs Ragnars í embætti forseta Íslands. Hún nær einnig iðulega að fanga andrúmsloftið sem ríkti í kringum einkavæðingu bankanna,“ segir Hörður Magnússon í umsögn um viðtalsbók Guðjóns Friðrikssonar, Saga af forseta sem út kom haustið 2008. Og Hörður bætir við: „Þegar líður á lesturinn vakna ýmsar spurningar varðandi framgöngu Ólafs Ragnars í útrásinni og hvort hann hafi ekki gengið allt of langt. Oft og tíðum virðist t.d. aðalmarkmið utanlandsferða hans vera að markaðsetja íslensk fyrirtæki, en hann var í kjörstöðu til þess vegna þess gríðarmikla tengslanets sem hann virðist hafa.“

Persónuleg en einhæf

soup„Myndin gefur góða og persónulega innsýn inn í heim stjórnlagaráðs,“ segir Sigurður Einar Traustason í umsögn sinni um heimildamyndina Blueberry Soup í leikstjórn Eileen Jerrett en hún var frumsýnd árið 2013. Sigurður Einar bætir síðan við. „Hins vegar er hún frekar einhæf að því leyti að einungis er rætt við kvenkyns fulltrúa stjórnlagaráðs. Skemmtilegra hefði verið að fá að heyra sjónarhorn karlanna líka.“

Annáll upplausnar

hrunid„Ekki er farið í greinandi lýsingar á atburðum enda er verkið sett saman það stuttu eftir hrunið að það hefði ekki verið fagmanlegt eða skynsamlegt,“ segir Snorri Guðjónsson meðal annars í umsögn sinni um Hrunið: Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar sem Guðni Th. Jóhannesson sendi frá sér árið 2009. Og Snorri bætir við: „Áhersla er lögð á að rekja atburðarás, notast er við samfélagsmiðla á borð við Facebook og athugasemdakerfi fréttamiðlana til að fá betri hugmynd um hugarástand almennings þegar það á við.“

Sólkonungi kennt um

skuggi„Ólafi Arnarsyni tekst vissulega ætlunarverk sitt; að kenna Davíð Oddssyni alfarið um bankahrunið á Íslandi 2008,“ segir Eyrún Bjarnadóttir í umsögn um bókina Skuggi sólkonungs eftir Ólaf Arnalds, en bókin kom út árið 2014. Eyrúnu þykir Ólafur samt „ekki nógu sannfærandi í málflutningi sínum því hann horfir á söguna í gegnum alltof þröngan glugga. Hruni bankanna ollu miklu fleiri en þessi eini maður, Davíð Oddsson. Að sjálfsögðu hafði hann mikil áhrif á íslenskt athafnalíf en hlutverk hans er ekki svo viðamikið að hann hafi verið einvaldur á Íslandi og honum einum hægt að kenna um hrunið.“

Einkavæðingarferlið

saga 2011b„Við lestur virðist mér augljóst að höfundur staðsetur sig örlítið til hægri þar sem Framsóknarmenn eiga örlítið undir högg að sækja og gjörðir flestra nema sjálfstæðismanna eru fordæmdar,“ segir Elsie Kristinsdóttir er í umfjöllun um grein eftir Björn Jón Bragason, „Sagan af einkavæðingu Búnaðarbankans“ sem birtist í Sögu árið 2011. Eliese bætir síðan við: „Vert er þó að taka fram að greinin var ágætis lesning og gaf ágæta innsýn inn í ferli einkavæðingu Búnaðarbankans, en þó einungis frá vissu sjónarhorni.“

Öfgatrúin á peningana

attabladarosinMár Másson Maack fjallar í nýjum pistli um  Áttablaðarósina, spennusögu sem Óttar M. Norðfjörð sendi frá sér árið 2010. Már segir þar þar meðal annars: „Óttar gerir … grein fyrir því hvernig öfgatrúin á vald peninga, sem kemur oft og tíðum upp í íslenskum hrunbókmenntum, hefur áhrif á fólk í öllum lögum samfélagsins. Hvort sem það er vandræði fátækrar fjölskyldu, vændi og ofbeldisglæpir í undirheimum Reykjavíkur eða hrottalegir viðskiptahættir í efstu lögum samfélagsins, virðist rauði þráðurinn vera tengdur peningum og hugsunarhætti útrásarinnar.“